top of page

Hvaða árstíma ættir þú að gifta þig í?


Mynd eftir Blik Studio
Mynd eftir Blik Studio

Ein af fyrstu stóru spurningunum sem kemur upp þegar þú byrjar að plana brúðkaupið er: „Hvenær eigum við að gifta okkur?“


Þetta er ekki bara spurning um hvenær salurinn er laus eða hvort þið fáið frí úr vinnu, árstíminn hefur ótrúlega mikil áhrif á stemninguna, myndirnar, framboð og jafnvel hvernig gestirnir upplifa daginn.


Til að hjálpa þér að taka upplýsta ákvörðun, hef ég tekið saman kosti og galla fyrir hvern árstíma og bætt smá stjörnuspeki inn í það, bara til að auðvelda þér lífið.


Sumar - Júlí til September

Já ég segi Júlí til September því sumarin eru farin að byrja seint og teyja sig inn í September. Sumarið á Íslandi er eins og gull, þú veist aldrei alveg hvenær það birtist eða hversu lengi það hangir hjá þér, en þegar það gerist er það hreinn töfrar. Ljós kvöldin sem virðast aldrei verða myrk, gullljósið sem fellur á þig í myndatökunni og þessi tilfinning að allt sé léttara og frjálsara. Sumarbrúðkaup bjóða upp á möguleikann á að segja „já“ í garði, við sjóinn eða jafnvel í fjallshlíð. Þetta er tíminn fyrir blómahaf, léttar silkikjóla og glitrandi drykki undir berum himni.


En… sumarið er líka vinsælasti tíminn og þú ert ekki ein/n í þessum draumi. Þess vegna þarf að skipuleggja vel, tryggja að bókanir séu gerðar snemma og vera tilbúin/n í að grípa hverja sólargeisla sem kemur. Einnig þurfa ekki öll brúðkaup á sumrin, það getur verið gaman að brjóta upp veturinn hjá þér og gestunum með skemtilegu brúðkaupi, svo hugsið vel hvaða árstími þið elskið mest, ekki bara velja það sama og allir.


Stjörnumerkin sem blómstra á sumrin – Ljón, Meyjur og Vogir – elska að vera í miðju sviðsljóssins og skapa upplifun sem allir tala um. Ef þú ert eitt af þessum merkjum gætir þú átt auðveldara með að skipuleggja hátíð sem er bæði glæsileg og full af lífi, með litum, tónlist og orku sem heldur gestunum dansandi langt fram á nótt.


Kostir:

  • Lengstu og björtustu dagarnir – gullna ljósið er þarna fram á kvöld.

  • Þú færð miklu fleiri möguleika á að halda athöfnina úti.

  • Minni hætta á að einhverjir lykilgestir séu veðurtepptir.

  • Blómaval er nánast endalaust.

  • Allir eru í góðu sumarskapi (og með frídagana í fersku minni).


Gallar:

  • Mest bókaði árstíminn – bæði söluaðilar og staðir eru uppbókaðir.

  • Fleiri uppbókaðir á háannatíma svo ekki víst að þú fáir drauma söngvarann.

  • Hiti er ekki alltaf tryggður (við erum enn á Íslandi) og það getur líka verið stressvaldur.

  • Fleiri ferðamenn í bænum = minna næði á vinsælum myndatökustöðum.

  • Sumir gestir geta verið á ferðalagi eða í sumarfríi erlendis.


Haust - Október til Desember

Haustið er eins og hlýr vefur úr gullnu ljósi, djúpum litum, seríum og kertaljósum. Það er eitthvað svo róandi og rómantískt við að segja „já“ þegar laufin eru að falla og veturinn er að banka á. Þetta er árstíminn fyrir þig ef þú vilt innilegt andrúmsloft, djúpa liti í skreytingunum og þægilega, hlýja stemningu í veislusalnum. Haustið hentar líka ótrúlega vel fyrir þá sem vilja fínar innandyra myndatökustaðsetninga, þar sem veðrið kallar stundum á meiri nálægð.


En haustið er líka árstími ófyrirsjáanlegrar rigningar og stuttra daga. Það krefst skapandi lausna og góðs teymis sem getur brugðist fljótt við og nýtt veðrið sem hluta af heildarupplifuninni.


Vogar, Sporðdrekar og Bogmenn sem gifta sig á haustin njóta þess að blanda dýpt og tilfinningum inn í hátíðina. Þessi merki kunna að meta smáatriðin, litina sem segja sögu og stemninguna sem heldur sér lengi eftir að síðasta kerti er slökkt. Haustið gefur þeim tækifæri til að skapa sannkallað kvikmyndaatriði.


Kostir:

  • Hlýir, djúpir litir – haustið gefur náttúrulega „cosy“ stemningu.

  • Minni samkeppni um söluaðila = betra framboð.

  • Þú getur notað kertaljós og hlýja lýsingu til að skapa töfra.

  • Skemmtilegt að nota árstíðabundinn mat (t.d. villibráð eða haustdessert).

  • Fullkomið fyrir þá sem elska rómantík í rigningu eða myrkrið.


Gallar:

  • Óstöðugt veður – gæti verið sumarblíða eða snjókoma.

  • Ljósmyndun úti getur orðið takmörkuð með stuttum degi.

  • Þú þarft meiri innanhússmöguleika

  • Haustlitasamsetning passar ekki alltaf við alla hönnun

  • Gestir geta verið þreyttir eftir sumarfrí og veturinn fram undan.


Mynd eftir Hildi Erlu
Mynd eftir Hildi Erlu

Vetur - Janúar til Mars

Veturinn fær oft á sig þann stimpil að vera „dauður tími“, en í brúðkaupsheiminum er hann alls ekki dauður, hann er dramatískur, einstakur og ótrúlega töfrandi. Hugsaðu þér mjúkan snjó, ljósaseríur sem glitra í myrkri og gesti sem koma inn í hlýjan sal úr kuldanum. Þetta er árstíminn sem hentar vel fyrir hátíðlega stemningu, ríkuleg borðskraut og stíl sem er bæði glamúr og hlýr í senn.


Þetta er líka árstími þar sem þú færð meiri athygli frá söluaðilum, þar sem minna er um samkeppni. En þú þarft að vera tilbúin/n fyrir veðurskilyrði sem geta verið… skemmtilega óútreiknanleg.


Steingeitar, Vatnsberar og Fiskar hafa einstaka hæfileika til að sjá fegurðina í kyrrðinni og myrkrinu. Þau kunna að meta dramatíska birtu, rómantískt andrúmsloft og þetta smá ævintýri sem veturinn færir. Vetrarbrúðkaup henta þeim sem vilja skapa töfra og nánd sem enginn gleymir.


Kostir:

  • Einstakur og sjaldgæfur árstími – þú verður ekki „einn af mörgum sumardögum“.

  • Snjór (ef hann mætir) skapar töfrandi myndir.

  • Söluaðilar eru yfirleitt lausari og gefa þér þá meiri tíma og þjónustu

  • Fullkomið fyrir dramatíska, hátíðlega hönnun.

  • Ljós í myrkri – kertaljós, ljósaseríur, glitrandi stemning.


Gallar:

  • Mikil óvissa um veður og færð, sérstaklega fyrir gesti að utan.

  • Skammur dagur = minna náttúrulegt ljós fyrir myndatökur.

  • Þú þarft að huga sérstaklega að hita og þægindum gesta.

  • Ferðalög gesta geta orðið dýrari.

  • Sumir tengja janúar og febrúar við „eftir hátíðir“ þreytu.


Vor - Apríl til Júní

Vorbrúðkaup eru eins og fersk blaðsíða, allt vaknar til lífsins, litirnir verða bjartari og sólin byrjar að verma húðina aftur. Það er þessi nýbyrjaða orka í loftinu sem gerir vorið svo sérstakt. Þú getur notað árstíðablóm eins og túlípanar, liljur og jafnvel kirsuberjablóm sem gefa brúðkaupinu mjúkan, rómantískan blæ. Dagar lengjast, veðrið mýkist og möguleikarnir á bæði inni- og útivið myndatökum aukast. Mörgum finnst það líka gaman að gifta sig á sumarsólstöðum sem táknræna merkingu um ást.


Það sem þarf þó að hafa í huga er að apríl og maí geta verið „veðurlega ruglaðir“ mánuðir, og þú gætir þurft að vera sveigjanleg/ur í skipulaginu. En ef þig langar í þessa fersku, vonarfullu orku – þá er vorið þinn tími.


Hrútar, Naut og Tvíburar elska orku nýs upphafs, og vorið gefur þeim allt sem þeir þrá: ferskleika, bjarta liti og tilfinninguna að heimurinn sé að opnast aftur. Þessi merki skína í brúðkaupi sem er fullt af hlátri, léttleika og smá ævintýrabrag.


Kostir:

  • Endurnýjun og ferskleiki í loftinu – náttúran vaknar.

  • Falleg blóm eins og túlípanar og kirsuberjablóm.

  • Veðrið fer að verða mildara.

  • Lengri dagar án háannatíma verðlags.

  • Hægt að nýta bæði innandyra og utandyra myndatökumöguleika.


Gallar:

  • Óútreiknanlegt veður – apríl getur verið bæði vetur og sumar.

  • Enn gæti verið kalt á kvöldin.

  • Minna framboð af sumarkjólum og blómum í maí.

  • Sumir gestir í prófum eða með upptekna skóla-/vinnudagskrá.

  • Ef þú ert of nálægt sumrinu getur samkeppni um söluaðila aukist.


Lokaorð: Það er enginn „réttur“ árstími – bara sá sem hentar ykkar stíl, fjárhagsáætlun og draumum best. Ef þú ert ekki viss, talaðu við brúðkaupshönnuð sem getur hjálpað þér að sjá hvernig dagurinn þinn gæti orðið töfrandi á hverju tímabili.


ree

Ef ykkur vantar fleiri ráð og skjöl fyrir skipulagið erum við með vefverslun þar sem við deilum með ykkur öllum skipulagsleyndarmálum og skjölum sem við höfum fullkomnað í gegnum árin. „Ég vildi að allir myndu nota þessi skjöl“ er eitthvað sem við heyrum oft frá söluaðilum.



Comments


bottom of page